Norræna Leikskáldalestin

Norræna leikskáldalestin

Norræna leikskáldalestin er nýjung á vegum Norræna leiklistarsambandsins, aðildarfélaga þess og kynningarmiðstöðva sviðslista á Norðurlöndum. Lestin kemur í stað Norrænu leikskáldaverðlaunanna sem hafa til þessa verið veitt einu norrænu leikskáldi á tveggja ára fresti. Leikárið 2012 - 2013 munu fimm norræna leikskáld, eitt frá hverju landi, ferðast með leikskáldalestinni, með tilnefnt leikrit í farteskinu. Skipulagðir verða leiklestrar á verkunum, í tengslum við hátíðir og stærri viðburði og þannig gefst leikskáldunum færi á að kynna verk sín á víðari vettvangi en ella. Norræna leikskáldalestin var ræst í Reykjavik í ágúst 2012 og var hluti af Norrænum sviðslistadögum sem haldnir voru á vegum Leiklistarsambandsins og væntanlegrar Kynningarmiðstöðvar sviðslista á Íslandi. Leiklestrarnir fóru fram í Þjóðleikhúsinu, Kassanum, laugardaginn 25. ágúst og sunnudaginn 26. Leikstjóri var Charlotte Böving.

Á leikárinu 2012-2013 eru eftirtalin verk um borð í leikskáldalestinni:

Danmörk

Enginn hittir engan eftir Peter Asmussen (á frumm.: Ingen Møder Nogen) Frumsýnt í Husets Teater í Kaupmannahöfn í janúar 2010.

Dómnefnd: Mads Thygesen, Simon Boberg & Mia Lipschitz

Enginn hittir engan er magnað kammerverk. Það leiðir okkur inn í sálarmyrkur tveggja ástríðufullra einstaklinga sem hafa lokast inni í mynstri og blekkingum sambands síns.

Úr umsögn dómnefndar:
„Enginn hittir engan er kraftmikið, innblásið og afgerandi leikrit. Peter Asmussen er listamaður tungumálsins og heldur með okkur í dásamlegt og hættulegt ferðalag um furður lífsins. Asmussen setur fram sextán stuttar senur sem eru allt í senn fyndnar, ljóðrænar og ofbeldisfullar og kannar samband karls og konu sem berjast við að halda samlíðan sinni, virðingu og sjálfsvitund þrátt fyrir að samskipti þeirra séu fyrir löngu orðin tilgangslaus. Við fyrstu kynni virðast manneskjurnar fullkomlega eðlilegar. Indælir, vel uppaldir borgarar sem kljást við alþekktan vanda í samböndum fólks; stefnumót, bið, svik, einsemd og endalok. Asmussen notar tungumálið sem eins konar skurðhníf og kryfur afar flóknar og mikilvægar tilvistarspurningar og bölvaða dauðakenndina um leið. “

PeterAsmussen Peter Asmussen er fæddur árið 1957. Hann býr í Kaupmannahöfn og skrifar fyrir leikhús, kvikmyndir, sjónvarp og útvarp. Asmussen hefur einnig sent frá sér nokkrar skáldsögur og samið óperulíbrettó. Árið 2010 hlaut Peter Asmussen Reumert-verðlaunin (Leikskáld árins í Danmörku) fyrir Enginn hittir engan.

 

Finland

Saga Megan eftir Tuomas Timonen (á frumm.: Meganin Tarina) Frumsýnt í borgarleikhúsinu í Kokkola í apríl 2010 Dómnefnd: Minna Leino dramatúrg, Jukka-Pekka Pajunen þýðandi, Anna Simberg höfundur og þýðandi. Saga Megan fjallar um Megan Meier, sem tók eigið líf aðeins 13 ára gömul, eftir að hafa orðið fyrir einelti á netinu.

Úr umsögn dómnefndar: ”Saga Megan eftir Tuomas Timonen er sögð á beinskeyttan og opinskáan hátt og varpar ljósi á hræðilegt fyrirbæri í menningu okkar. Þegar raunverulegum vinasamböndum er áfátt, getur sýndarveruleikinn tekið yfir og þrátt fyrir að sumir líti eingöngu á net-einelti sem skemmtun eða leik, þá getur slíkt rústað lífi fórnarlambsins og nánustu ættingja þess. Timonen fjallar um óafturkræfar afleiðingar lélegrar fyndni á opinn og magnaðan hátt. Dapurleg örlög Megan fylgja lesandanum um langa hríð.”

TuomasTimonen Tuomas Timonen er fæddur árið 1975. Hann er dramatúrg, leikstjóri og ljóðskáld. Timonen hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir verk sín, þeirra á meðal Tanssiva karhu-verðlaunin fyrir ljóðasafnið Óður til ástarinnar (2007) og Lea-verðlaunin árið 2011 fyrir Sögu Megan (Leikrit ársins)

 

Ísland

Hænuungarnir eftir Braga Ólafsson
Frumsýnt í Þjóðleikhúsinu í febrúar 2010.
Dómnefnd: Magnúr Þór Þorbergsson, lektor og fagstjóri við leiklistar- og dansdeild LHÍ, Þorgerður E. Sigurðardóttir bókmenntagagnrýnandi og Guðjón Pedersen leikstjóri.
Hænuungarnir fjalla um húsfund í fjölbýli í Reykjavík, þar sem jassáhugamaðurinn Sigurhans hyggst koma upp um þá sem hann telur að hafi stolið frosnum kjúklingum úr frystikistu hans í kjallaranum fyrir skemmstu.

Úr umsögn dómnefndar: „Braga Ólafssyni tekst að fjalla um aðkallandi þjóðfélagsmein í farsakenndum en um leið afar raunsæislegum stíl, í verki sem hverfist um húsfund í litlu fjölbýlishúsi í Hlíðunum. Í leikritinu er tekist á við spurningar um glæp og refsingu, sekt og ábyrgð sem ná langt út fyrir hinn meinta hænsnaþjófnað. Hvunndagslegar kringumstæður verksins og samtöl, sem virðast snúast um allt annað en það sem raunverulegu máli skiptir, kalla fram mynd af samfélagi þar sem þröngir hagsmunir einstaklinganna ráða för. Í verkinu kemur vel í ljós hæfileiki Braga sem leikskálds. Persónurnar eru lifandi og látlaus samtalsmátinn er margræður. Leikritið tekur með gagnrýnum og gamansömum hætti á samfélagi sem hefur misst sjónar á upphaflegum gildum.”

BragiÓlafsson Bragi Ólafsson, rithöfundur, ljóðskáld, leikskáld og tónlistarmaður er fæddur árið 1962. Hann hefur sent frá sér ljóðabækur og fimm skáldsögur sem allar hafa vakið athygli gagnrýnenda. Bragi hefur samið þrjú útvarpsleikrit og tvö leikrit fyrir leiksvið; Hænuungana og Belgísku Kongó. Bæði verkin voru tilnefnd til íslensku leiklistarverðlaunanna. Bragi hefur hlotið tilnefningar fyrir önnur verk sín, þar á meðal tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Frekari upplýsingar um höfundinn: http://bragi.funksjon.net/about-2/bragi-olafsson/

 

Noregur

Ég hverf eftir Arne Lygre (á frumm.: Jeg forsvinner)
Frumsýnt í La Colline Théâtre National í París í nóvember 2011.

Dómnefnd: Cecilia Ölvezcky dramatúrg, Tom Remlov listrænn stjórnandi norsku óperunnar og Kai Johnson framkvæmdastjóri Dramatikkens hus í Osló.

Ég hverf fjallar um þrjár konur sem standa á barmi hyldýpis. Þær reyna að komast undan, en þeim virðist vera fyrirmunað að ná nokkurri fótfestu. Á sama tíma ímynda þær sér að þeirra bíði allt önnur örlög; þær samsama sig sögum af öðrum manneskjum, þær laðast að einhverju öðru en sjálfum sér. Þegar þær taka að hverfa, ein af annarri, þá fer textinn úr því að fjalla um nokkra einstaklinga yfir í að lýsa samfélagi í krísu. Hið dramatíska form er kannað með orðum og með því að ögra skilningi manns á persónusköpun og frásagnarmáta.

Úr fjölmiðlagagnrýni: „Í leikhúsinu hefur Arne Lygre skapað ríki þar sem sjálfsvitundin fæðist og deyr. Hann fjallar með mínímalískum en afar nákvæmum hætti (og á áður ókunnan máta) um hið óræða og hin svokölluðu gráu svæði í nútímaþjóðfélagi.” Télérama, 09. 11. 2011

ArneLygre Arne Lygre komst fyrst fram á sjónarsviðið sem leikskáld árið 1998 og hefur síðan þá samið sjö leikrit sem hafa verið sviðsett og gefin út víðan um heim. Arne Lygre sendi frá sér smásagnasafn árið 2004 og hlaut hin virtu norsku bókmenntaverðlaun, Brageprisen. Hann hlaut bókmenntaverðlaun Mads Wiels Nygaards´ Legacy árið 2010. Frekari upplýsingar um höfundinn má nálgast á heimasíðu hans: http://www.arnelygre.com

 

Svíþjóð

Mira á leið hjá eftir Martinu Montelius (á frumm.: Mira går genom rummen) Frumsýnt í Konunglega leikhúsinu í Stokkhólmi í október 2011.
Dómnefnd: Lars Ring gagnrýnandi SvD, Marie Persson Hedenius dramatúrg við borgarleikhúsið í Uppsölum, Rolf S. Nielsen formaður stjórnar Teatercentrum og Ann Mari Engel aðalritari sænska leiklistarsambandsins. Í tragikómedíunni Mira á leið hjá er hugmyndin um fjölskylduna tekin til rækilegrar endurskoðunar. Höfundurinn setur sig í spor barnanna og sýnir fram á að börn þurfa jafnan að gera hluti sem þau óttast en fullorðna fólkið hefur val hvort það gerir eða ekki. Mira á leið hjá er leikrit hinna stóru tilfinninga; sorgar, reiði, þrár og djúpstæðrar ástar.

Úr umfjöllun um verkið: „Í leikritinu Mira á leið hjá heldur Martina Montelius uppteknum hætti og vefur gamansemi saman við háalvarleg málefni. Áhorfandinn fylgist með frá sjónarhorni barnsins og öðlast þar með innsýn í heim flókinna fjölskyldutengsla og einstæðra foreldra.” - Samtök sænskra leiklistargagnrýnenda

„Þetta er frábær texti sem fær mann til að reka upp rosahlátur, tárfella af sorg og finna til. Verkið er uppfullt af reynslu sem birtist okkur í myndum sem eru dregnar upp af næmni, samúð og húmor; myndum sem við getum öll speglað okkur í." -Karin Helander, SvD

MartinaMontelius Martina Montelius er fædd í Stokkhólmi árið 1975. Hún er leikskáld og leikstjóri auk þess að stýra leikhúsinu Brunnsgatan 4 í Stokkhólmi. Martina Montelius hefur skrifað fjölda leikrita sem þýdd hafa verið á dönsku, þýsku og ensku. Í febrúar 2012 hlaut verðlaun samtaka sænskra leiklistargagnrýnenda fyrir besta barna- og unglingaverkið