Samtök Skapandi Greina stofnuð

28. feb 2011

Samtök skapandi greina, SSG, verða formlega stofnuð, á morgun, þriðjudaginn 3. maí. Að samtökunum standa allar kynningarmiðstöðvar lista og skapandi greina á Íslandi og samtök í hverri grein. Þau samtök, sem eru bakhjarlar kynningarmiðstöðva, mynda breiðustu fylkingu fagfólks í skapandi greinum í landinu.

Samtök Skapandi Greina stofnuð SSG munu vinna að sameiginlegri stefnumótun greinanna, í samstarfi við opinbera aðila og íslenskt atvinnulíf. Heildarmarkmið SSG er að þáttur skapandi greina í hagkerfi landsins sé tryggður.

Samtökin taka við hlutverki Samráðsvettvangs skapandi greina sem hefur verið leiðandi í sameiginlegri stefnumótun greinanna á síðustu tveimur árum og átti frumkvæði að því að rannsókn um hagræn áhrif skapandi greina var hrundið af stað. Tölulegar niðurstöður rannsóknarinnar sem kynnt var 1. desember s.l. leiddu í ljós að skapandi greinar eru einn helsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Á morgun, þriðjudag, verður skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar kynnt og verður tilkynnt um stofnun Samtaka skapandi greina að lokinni þeirri kynningu.

Kynningin fer fram í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101 kl. 12.00 og verður myndataka í tilefni að stofnun samtakanna að henni lokinni og fer hún fram við Norræna húsið.

Samtök skapandi greina munu stuðla að áframhaldandi rannsóknum á greinunum, tryggja að þær njóti hagstæðra vaxtarskilyrða og að þau sóknarfæri sem liggja í skapandi greinum séu nýtt í þágu hagvaxtar og lífsgæða. Jafnframt munu samtökin beita sér fyrir fræðsluverkefnum og endurmenntun fagfólks greinanna. Stofnfélagar Samtaka skapandi greina eru: Samtónn (ÚTÓN og Íslensk tónverkamiðstöð), Kvikmyndamiðstöð Íslands, Leiklistarsamband Íslands, KÍM (kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar), Bókmenntasjóður, Hönnunarmiðstöð Íslands og IGI – Icelandic Gaming Industry (Samtök tölvuleikjaframleiðenda).

Fyrsti talsmaður Samtaka skapandi greina er Ása Richardsdóttir, forseti Leiklistarsambands Íslands, og veitir hún allar nánari upplýsingar í síma 664 0404 eða á netfangi asa@leikhopar.is

Hér má finna pdf útgáfu af skýrslunni, Kortlagning hagrænna áhrifa skapandi greina

Fleiri fréttir